top of page
Orkustöðvar - chakras

Orkustöð eða chakra þýðir hjól sem snýst og er átt við hjól af orku sem myndar hringiðu í gegnum líkamann. Aðal orkustöðvarnar eru 7 talsins og liggja þær meðfram hryggnum, byrja að botni hryggsins og leiða til kórónu höfuðsins. Orkustöðvarnar safna orku sem kallast lífsorka eða Prana, umbreyta henni og dreifa um líkama okkar. Sú orka heldur okkur heilbrigðum og lifandi.


Orkustöðvarnar liggja á þremur miðlægum orkubrautum. Shushumna Nadi liggur í miðjunni og leiðir okkur að hærri vitund. Ida Nadi liggur á vinstri hluta líkamans, kvenorkan, og helst í hendur við tilfinningar okkar og þrár í fortíðinni, þar er "superego" sem heldur í allar okkar minningar, vana og allt sem mótar okkur. Pingala Nadi liggur á hægri hluta líkamans, karlorkan, og helst í hendur við okkar plön og áætlanir. Þar er "ego" sem gefur okkur tilfinningu um "égið" eða að við séum  aðskilin frá heiminum.

Hver orkustöð hefur ákveðna eiginleika og liti, litirnir haldast í hendur við tíðni orkunnar í hverri orkustöð. Einnig titra þær á mismunandi tíðni háð meðvitund og vitund einstaklingsins. Neðri orkustöðvarnar titra á lægri tíðni og eru tengdar við grundvallar tilfinningar okkar og þarfir og er því þéttari eða þyngri orka. Efri orkustöðvarnar samsvara okkar hærri huglægu og andlegu eiginleikum og þær eru mun fínni og léttari orka.

Flæði orkunnar í gegnum orkustöðvar einstaklingsins ákvarðar heilsuástand hans og jafnvægi. Allir hugleiðslu- og jógatímar leitast við að koma orkustöðvunum í  jafnvægi, hreinsað er neðri orkuna og leitt hana upp í átt að hærri orkustöðvunum. 

Til þess að við getum verið fullkomlega sjálfsmeðvituð og í samræmi við okkar líkamlega og andlega eðli þurfa neðri orkustöðvarnar að vera í samræmi við efri og léttari orkustöðvarnar. Það er að segja, grundvallarþarfir okkar þurfa að vaxa til að tengjast andlegum eiginleikum okkar. Allar okkar efri orkustöðvar tengjast neðri orkustöðvunum, 7. orkustöðin tengist við 1. orkustöðina, 6. við 2. og 5. við 3. orkustöðina. 


Stífluð orka í einhverri af orkustöðvunum okkar getur oft leitt til veikinda og því er mikilvægt að skilja hverja orkustöð fyrir sig og hvað við getum gert til þess að halda orkunni flæðandi. (1)
  

1. Rótarstöðin - Muladhara chakra:

Staðsett neðst á rófubeininu. Hún hefur áhrif á grunnþarfir okkar, jafnvægi, öryggi og gefur okkur jarðtengingu. Tengist mat, peningum og fjárhagslegu sjálfsstæði. Þegar rótarstöðin er opin finnum við fyrir öruggi og erum óttalaus. Rótarstöðin er tengd við höfuðstöðina og til þess að virkja höfuðstöðina til fulls þarf að hafa sterka undirstöðu, og er það gert með því að virkja rótarstöðina. Frumefnið er Jörð og er hún rauð á litinn og tengist rótarstöðin lyktarskyninu.

2. Magastöðin - Swadhisthana chakra:

Staðsett fyrir ofan lífbeinið og fyrir neðan naflann. Orðið Swadisthana þýðir "bústaður sjálfsins". Tengist sköpunargáfu, löngunum, tilfinningum og kynorku. Þegar magastöðin er í jafnvægi skapar hún vellíðan, nægjusemi og gleði. En þegar hún er í ójafnvægi getur myndast tilfinningalegur óstöðugleiki, ótti um breytingar, kynlífsvandamál, þunglyndi og fíkn.
Frumefnið er vatn og er hún appelsínugul á litinn og tengist magastöðin bragðskyninu. 

3. Sólarplexus - Manipura chakra:

Staðsett rétt fyrir neðan bringubeinið og þýðir Manipura "ljómandi gimsteinn". Sólarplexus er þekkt sem valdastöð og er uppspretta persónulegs styrks, sjálfstrausts, stríðsmannsorku og viljastyrks. Hún hefur áhrif á metnað, athafnasemi og hugarafl. Sólarplexus stjórnar meltingu og efnaskipti líkamans. Þegar þriðja orkustöðin er opin finnurðu fyrir sjálfsöryggi, tilgangi og sjálfstæði. Ef Sólarplexus er í ójafnvægi þjáistu oft af litlu sjálfsáliti, átt erfitt með að taka ákvarðanir, ert stjórnsamur eða með reiðivandamál. Frumefnið er eldur og er hún gul á litinn og tengist orkustöðin augunum eða sjón. 

4. Hjartastöðin - Anahata chakra:

Staðsett á miðpunti brjóstkassans og þýðir Anahata "ómeidd/ur". Nafnið gefur til kynna að á bakvið sorgina og syrgðina frá liðinni reynslu er hreinn og andlegur staður þar sem engin sorg er til staðar. Ef hjartastöðin er opin geyslar út frá þér ást og samúð, óskilyrð ást. Þú ert fljót/ur að fyrirgefa og samþykkir aðra eins og þeir eru og sjálfa/n þig. Ef fjórða orkustöðin er lokuð getur myndast sorg, reiði, öfund, ótti við svik og hatur gagnvart sjálfum þér og öðrum. Frumefnið er loft og er hún græn á litinn og tengist hjartastöðin snertingu. 

5. Hálsstöðin - Vishuddha chakra:

Staðsett á hálsinum og er fyrsta af þremur andlegu orkustöðvunum. Fimmta orkustöðin tengist tjáningu, bæði í tali, hlustun, list, söng og allt sem við sköpum. Hér lærum við að hafa stjórn á sjálfinu eða egóinu, með því að sigra þessa orkustöð er hægt að sigra sjálfan sig. Hálsstöðin tengist einnig draumum og ímyndunum. Frumefnið er eter eða loft og hún er blá á litinn og tengist hálsstöðin eyrunum eða að heyra. 

 

6. Ennisstöðin - Ajna chakra:

Staðsett á miðju enninu eða þriðja auganu og þýðir "handan visku". Hún er miðstöð innsæis og leiðir þig í átt að innri þekkingu. Ennisstöðin færir okkur innsæi, skyggnigáfu, skilning og ímyndunarafl. Ida og Pingala eins og nefnt var hér að ofan, kvenorkan og karlorkan, ferðast upp hrygginn og mætast í ennisstöðinni, þar sameinast þau í eitt og manneskjan upplifir sig algjörlega heila og í alsælu. Frumefnið er ljós og hún er dökk blá eða fjólublá á litinn og tengist ennisstöðin sjötta skilningarvitinu. 

7. Höfuðstöðin - Sahasrara chakra: 

Staðsett á krónu höfuðsins eða efst á höfðinu. Hún er orkustöð alheimsvitundar og stjórnar öllum hinum orkustöðvunum. Höfuðstöðin er uppspretta uppljómunar og andlegrar tengingar við allt sem er. Tenging við okkar hærra sjálf, allar lífverur jarðarinnar og guðdómlegu orkuna sem skapar allt í alheiminum. Ef sjöunda orkustöðin er opin ertu í tengingu við þína hreinu vitund, þú ert vitundin og meðvitundin sjálf. Þú ert hluti af alheiminum, við erum eitt. Í gegnum þessa orkustöð flæðir ljós alheimsins í gegnum líkama okkar og veitir okkur heilun, visku, og frið. Uppljómun gefur til kynna algjöra alsælu og að enginn tími sé til staðar, það er einungis blekking hugans. Öll skynjun breytist og magnast, allar hömlur  hverfa og allur aðskilnaður. Frumefnið er andi og hún er fjólublá eða skjannahvít á litinn. (2) (3)

1. Heimild

2. Heimild 

3. heimild 

bottom of page